Hugsýn

Hvað er árangursmiðuð forysta? – Markmið og ávinningur

Árangursmiðuð forysta er nálgun sem miðar að því að samræma stefnu, markmið og ábyrgð innan skipulagsheilda til að ná tilteknum árangri. Árangursmiðuð forysta gengur út á að starfsemi og aðgerðir allra starfsmanna styðji við heildarstefnu skipulagsheildarinnar. Ferlið byggir á skýrri markmiðasetningu, árangursmælikvörðum og stöðugri endurskoðun og endurgjöf. Það byggir ekki síður á því að samhæfa forræði og ábyrgð, þannig að viðkomandi skilji sína ábyrgð og geti axlað ábyrgðina með því að hafa það sem þarf til þess. Mikil áhersla er lögð á markmið og mælikvarða frekar en einstök verkefni. Spurningin er alltaf “hverju á verkefnið að skila okkur”? Með öðrum orðum: Hvað á að GERAST (útkoma) í stað hvað á að GERA (aðgerðir). Verkefnin eru einfaldlega þau sem þarf til þess að ná tilsettum árangri og því þurfum við ætíð að tengja þau tilteknum árangursmarkmiðum. Árangursmiðuð forysta er því markmiðadrifin frekar en verkefnadrifin. 

Þessi nálgun byggir mjög á því sem kallað hefur verið “skýr sjónlína”, þ.e. að hver og einn starfsmaður skilji markmið heildarinnar með því að setja sér eða taka þátt í að ná markmiðum sem styðja við þau. Þannig þarf að tengja markmið skipulagseininga, liðsheilda og einstaklinga við heildarmarkmið skipulagsheildarinnar. Það tryggir að starfsmenn tengi sig við markmið þeirra teymis eða einingar sem þeir eru hluti af, og geti þannig með skýrum hætti forgangsraðað þeim tíma sem varið er til stefnumarkandi verkefna. Með því skilja þeir jafnframt hvernig sameiginleg markmið teymisins tengjast markmiðum heildarinnar. Þannig stuðlar árangursmiðuð forysta að meiri einbeitingu og skýrari ábyrgð.

En ávinningurinn af árangursmiðaðri forystu felst í fleiru. Skipulagsheildir geta fylgst með og bætt frammistöðu með gagnadrifinni ákvarðanatöku. Starfsmenn öðlast yfirsýn yfir þann árangur sem þeir skapa með sínum verkefnum og tengja þannig við stefnu heildarinnar. Það skapar hvata og staðfestan tilgang fyrir starfsmenn, sem leiðir til aukinnar starfsánægju, metnaðar og tryggðar. Að auki auðveldar hún aðlögun að breytingum í umhverfi með stöðugu mati á stefnu og framkvæmd. Til þess að tryggja þetta, er árangursmiðuð forysta ekki síður byggð á samspili í mótun markmiða ofan frá og niður og neðan frá og upp, þannig að það náist samstilling og samstaða um það hvað sé mikilvægast fyrir heildina og hvers vegna skipti máli að styðja við þær áherslur.

Árangursmiðuð forysta er nálgun sem gerir miklar kröfur til stjórnunar og samskipta. Ef vel tekst til bætir hún samkeppnishæfni, og starfsanda og tryggir að öll orka fyrirtækisins beinist að því að ná sameiginlegum markmiðum. Hún stuðlar að stöðugum umbótum og árangri í hvaða rekstrarumhverfi sem er!

Facebook
Twitter
Email
Print

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *