Það er eitt sem aldrei breytist, en það er að við þurfum sífellt að vera að fást við breytingar. Það er líka annað sem er algerlega öruggt: Breytingum fylgir óvissa og oftar en ekki óöryggi þeirra sem þurfa að fást við þær. Stundum hefur verið haft á orði, að allir séu með pottþétt plön þangað til þeir fá kjaftshöggið. Það kemur venjulega úr óvæntri átt og skyndilega og stundum er erfitt að ná áttum fljótt og örugglega. Það hlýtur því að vera spurning sem brennur á öllum: „Hvernig mætum við óvissu og bregðumst við óvæntum atburðum þannig að við komum standandi niður?“
Samhliða því að reka daglega starfsemi með árangri, eru gerðar sífellt meiri kröfur um framsýni, stefnu, þróun sem lýtur að fjárhagslegum árangri, samfélagsábyrgð og að uppfylla þarfir starfsmanna og annarra haghafa. Stefnumótun er oft ofarlega á lista stjórnenda og snýr að því að finna leiðir til þess að m.a. að auka framlegð, bæta þjónustu, auka starfsánægju, minnka kolefnisspor og bæta afkomu. Flestir kannast líklega við að það getur síðan reynst þrautin þyngri að koma öllum fyrirætlunum i framkvæmd í daglegu amstri. Rannsóknir hafa sýnt að einungis 1 af hverjum 4 stefnum komast í framkvæmd eins og til var stofnað. Á þetta allt leggst svo óvissa og óvæntir utanaðkomandi atburðir og má þar nefna aðgangur að lánsfé, heimsfaraldur, veðurfar eða stríð, en allt veldur þetta til dæmis hækkandi aðfangaverði eða getur haft afgerandi áhrif á eftirspurn sem getur breytt stöðunni á svipstundu.
En þetta þarf ekki að vera svona erfitt eða kvíðvænlegt. Tækifærin eru sannarlega til staðar og þau þarf að nýta. Þegar vel er að gáð, þarf jafnframt að gæta að nokkrum einföldum grundvallaratriðum. Þar eru lykilorðin skýr ábyrgð, yfirsýn og gagnsæi. Þau mega alls ekki bara vera orð á blaði heldur verða að vera raunverulega til staðar. “Promise Based Execution” eða loforðamiðuð framkvæmd stefnu byggir einmitt á þessum orðum. Þar sem skýr fókus er settur á árangur, horft er á það sem á að gerast umfram það sem er gert. Þessi nálgun við innleiðingu á stefnu byggir á kerfisbundinni og hnitmiðaðri aðferð er varðar samtöl um framgang stefnu og að innleiða skýra innbyrðis ábyrgð á árangri og aðgerðum. Loforð á milli aðila á sér stað þar sem lofað er að ákveðinn hlutur gerist á ákveðnum tíma. Aðferðin byggir á “leikáætlunum” fyrir starfsemina í heild sem brotin er niður á svið, deildir og jafnvel starfsmenn. Bara heitið leikáætlun er nóg til þess að keppnisskapið fer á flug og aðilar láti ekkert stöðva sig. Reglulegir fundir þar sem farið er yfir stöðuna á leikáætlunum og sérstaklega þá þætti sem þarf að skoða, tryggir betri yfirsýn og aukið gagnsæi. Fundirnir verða því markvissari en áður þar sem samtalið verður hnitmiðaðra til að ræða það sem mestu máli skiptir. Með þessu verður gagnsæið og yfirsýnin algjör og árangurinn öllum augljós.
Það er stundum sagt að “culture eats strategy for breakfast” sem mætti þýða á íslensku að menningin étur stefnuna í morgunmat. Við segjum að þetta segi bara þeir sem ná ekki að innleiða stefnuna. Það er einmitt tækifæri í að hafa áhrif á og breyta menningunni með markvissri innleiðingu á stefnu, það tækifæri þarf að grípa. Samheldinn hópur sem vinnur í átt að sameiginlegum markmiðum í gagnadrifnu umhverfi nær árangri.
Virðið sem skapast með markvissri innleiðingu stefnu er markmiðadrifin og árangursmiðuð skipulagsheild sem tilbúin er að takast á við óvissu og óvænta atburði í rekstrinum.
Það er kominn tími til að taka stefnuna alvarlega og ná auknum árangri.